144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má vel vera að hv. þingmanni finnist atvinnuveganefnd vera úti á túni í þessu máli eins og hann orðar það og það sé algerlega útilokað verkefni að nefndin geti stigið inn á verksvið verkefnisstjórnar. (Gripið fram í.) Á hvaða forsendum stígur hæstv. ráðherra á hverjum tíma inn í málið? Stígur hann ekki inn á verksvið verkefnisstjórnarinnar ef hann gerir breytingar á tillögum hennar? (Gripið fram í: Þú skilur ekki lögin.) Ég skil lögin nákvæmlega eins. (Gripið fram í.) Til hvers er verið að senda málið til þingsins og hafa þar málefnalega umræðu um það og koma síðan með einhverja niðurstöðu úr þeirri vinnu? Menn geta túlkað þetta með þeim hætti sem þeir kjósa, en þetta er alveg skýrt í lögunum. Það var einhver tilgangur með því að senda málið til þingsins, virðulegi forseti. Það getur ekki hafa verið eitthvað annað en tilgangur með því til þess að fá fram málefnalega (Forseti hringir.) umræðu og að (Forseti hringir.) taka síðan ákvarðanir byggðar á rökstuðningi, hann er að finna í nefndaráliti okkar (Forseti hringir.) og stenst alla skoðun að mínu mati.