144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ósk hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um að haldinn verði fundur með forseta og þingflokksformönnum. Ástæðan er sú að við höfum farið yfir úrskurð forseta og að mínu mati er hann pólitískt álit hans. Þetta er bullandi pólitískt plagg, þetta er ekki faglegur úrskurður forseta alls þingsins, það er svo einfalt. Í úrskurðinum eru fullyrðingar sem standast ekki og stangast á við ágætt álit og minnisblað sem atvinnuveganefnd fékk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í nóvember sl., og stangast á við það sem stendur beinlínis í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni um Hvammsvirkjun, sem kemur beint frá verkefnisstjórninni. Ég tel að þær forsendur sem forseti byggir úrskurð sinn á hafi verið rangar og hann þurfi að fara yfir málið að nýju. Þess vegna er eðlilegt að hann fundi (Forseti hringir.) með þingflokksformönnum, fái þessar efnislegu athugasemdir og svari þeim efnislega (Forseti hringir.) og faglega að þessu sinni.