144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir þá ósk sem hér hefur verið borin fram, að forseti þingsins fundi með þingflokksformönnum og hafi þar með í för þá lögfræðilegu ráðgjafa sem voru honum innan handar um að móta þann úrskurð sem hann kynnti hér munnlega og við höfum nú fengið sendan í kjölfarið.

Ég gerði athugasemdir áðan við þau vinnubrögð að þessi úrskurður hefði verið kynntur með þeim hætti að honum var dreift til þingflokksformanna skömmu fyrir þingfund og hann síðan kynntur munnlega. Það hefði auðvitað farið betur á því að þetta hefði verið kynnt fyrir fram því að hér er um að ræða mál sem lýtur að því að þingmenn í minni hluta hafa dregið í efa að tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar sé beinlínis þingtæk. Það er ekki úr lausu lofti gripið heldur byggjum við þingmenn minni hlutans það meðal annars á þeim álitum sem starfsfólk hæstv. umhverfisráðherra annars vegar og hins vegar starfsfólk hæstv. iðnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sendi til bæði hv. atvinnuveganefndar og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Að sjálfsögðu hefði verið eðlilegt að gera þingflokksformönnum grein fyrir rökstuðningnum á bak við úrskurðinn og gera það fyrir þingfund, (Forseti hringir.) en úr því að það var ekki gert þá tek ég undir þá kröfu að (Forseti hringir.) slíkur fundur verði haldinn hið snarasta.