144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:38]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Forseti þingsins tók þá ákvörðun í þessu máli, þrátt fyrir aðvörunarorð og hávær hróp frá stjórnarandstöðunni, að sigla þessu máli rakleiðis upp í fjöru og þar er það núna strand. Það sama má segja um öll stóru mál ríkisstjórnarinnar, þau eru öll strand. Og það er ekki bara skoðun mín, þetta er á forsíðu DV í dag, flennifyrirsögn: Öll stóru málin strand.

Þess vegna hefði maður haldið að fullt tilefni væri til þess af núverandi stjórnarmeirihluta að fara aðeins yfir stöðuna og átta sig á því og draga lærdóm af síðastliðnum desember, þegar það eina sem núverandi ríkisstjórn tókst að koma í gegnum þingið voru fjárlögin, að tími samráðsleysis, tími þagnarinnar, tími einstrengingslegra ákvarðana án samráðs (Forseti hringir.) er liðinn.