144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að mikilvægt sé að á fundinum á eftir með þingflokksformönnum og forseta verði farið vandlega yfir það hvort menn vilji í alvörunni halda því til streitu að hafa þetta mál á dagskrá, vegna þess að hér fyrir utan logar allt í deilum á vinnumarkaði. Það eru stórátök í gangi. Það eru verkföll sem hafa gríðarleg áhrif á velferðarþjónustuna í landinu.

Hvað eru menn þá að gera á Alþingi? Menn eru að taka ákvörðun um að standa í deilum um ráðstöfun auðlinda þjóðarinnar, og ekki aðeins standa í deilum um ráðstöfun auðlinda þjóðarinnar heldur er verið að taka ákvörðun um að kippa úr sambandi verkferlum sem samþykktir voru samhljóða á síðasta þingi. Það er ákvörðun sem verið er að taka hér.

Ég sat einn fund í atvinnuveganefnd þegar verið var að vinna þetta mál og það kom skýrt fram hjá þeim sem unnu verkið að þeir litu svo á.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þetta er það sem þessi ríkisstjórn ákveður að setja á oddinn; stríð um ráðstöfun auðlinda þjóðarinnar. Þetta er skandall, virðulegi forseti.