144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég stóð einhvern veginn í þeirri meiningu að hlé yrði gert á þessum fundi meðan þingflokksformenn funduðu með hæstv. forseta. Ég vil spyrja hvort það sé ekki réttur skilningur því að það er í mínum huga augljóst mál að ekki getur gengið að framsögumenn nefndarálita séu að flytja sín erindi án þess að vita niðurstöðu þess fundar. Ég spyr því hæstv. forseta hvort það sé ekki öruggt mál að hér verði gert hlé á fundi meðan þingflokksformenn og hæstv. forseti funda. Ef svo er ekki vil ég biðja hæstv. forseta að íhuga vandlega þá stöðu sem þingmenn eru settir í sem þurfa að flytja sín nefndarálit vitandi ekki um niðurstöðu þess fundar.