144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[18:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir úrskurður forseta og samkvæmt því sem ég hef nú kynnt mér þá er úrskurður úrskurður og honum verður ekki einu sinni vísað til Hæstaréttar ef út í það er farið. Við ætlum samt að ræða úrskurð forseta þingsins, um hvort eigi að halda málinu áfram eða ekki, af því að sum okkar telja að hann sé rangur og eru ekki sammála honum.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið margítrekað að farið sé gegn verkefnisstjórn. Nú situr hér í salnum hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sem var í margræddri verkefnisstjórn sem skilaði áliti um hvað væri fýsilegast að virkja og síðan hvað væri síst fýsilegt að virkja. Þegar niðurstaða þeirrar verkefnisstjórnar lá fyrir var búin til ný verkefnisstjórn sem raðaði síðan í nýtingu, bið og vernd. Í upphafi var því ekki raðað í þá flokka sem (Forseti hringir.) hér er verið að ræða heldur búin til ný verkefnisstjórn sem raðaði undir forsæti síðustu ríkisstjórnar. Þannig var þetta.