144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[18:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er nú almennt þeirrar skoðunar að þegar kemur að lagatæknilegum atriðum þá sé hv. þm. Brynjar Níelsson, fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, skarpasti hnífurinn í skúffu þingsins. Lagaskýring hans var einföld og hugsanlega góð, segi ég að órannsökuðu máli. Það er algjörlega ljóst að hæstv. forseti hefur ekki farið í hans smiðju til þess að leita röksemda. Röksemdir hv. þingmanns voru allt aðrar en þær sem er að finna í úrskurðinum. Úrskurðurinn byggir á því að það hafi farið fram faglegt mat og þess vegna sé réttlætanlegt að setja þessar fimm virkjanir í nýtingarflokk. Það er rétt að því marki að fjórar þeirra voru áður settar í virkjunarflokk en ekki ein þeirra, Hagavatnsvirkjun. Hvers vegna er hún sett núna í virkjunarflokk á þessum röksemdum? Það brýtur hið röklega samhengi. Það sýnir auðvitað hvað þetta er veikt að jafnvel skarpasti hnífurinn í skúffunni getur ekki skýrt það.