144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[18:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég sat í verkefnisstjórn um rammaáætlun og var skipuð af forsætisráðherra. Þegar ný ríkisstjórn tók við undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur þá sat ég áfram í verkefnisstjórninni sem hennar fulltrúi, þ.e. fulltrúi forsætisráðherra. Það er rétt að við röðuðum kostunum eftir því hverjir væru best fallnir til virkjunar og hverjir væru best fallnir til verndar, en verkefnisstjórnin flokkaði ekki. Það kerfi kom til síðar og var ákveðnum aðilum falið að gera það og að þeirri vinnu komu þá fulltrúar þáverandi ráðherra. Menn þurfa auðvitað að halda þessum staðreyndum til haga.

Hins vegar er þessi umræða um fundarstjórn forseta farin að litast svolítið mikið af því að menn séu komnir inn á efnisatriði málsins þannig að ég vonast einfaldlega til þess að fundurinn á eftir verði árangursríkur, málið komist aftur á dagskrá og við getum rætt efni máls.