144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er engin leið að átta sig á því á hvaða leið stjórnarmeirihlutinn eiginlega er. Hér hefur meiri hlutinn verið að böðlast áfram með hið versta mál í umhverfismálum í allan dag og síðan mætir umhverfisráðherrann í fréttatíma annarrar sjónvarpsstöðvarinnar og slátrar leiðangrinum, hafnar því algerlega sem forusta nefndarinnar hefur verið að reyna að troða inn á dagskrána og spilla friði í þinginu með að flytja hinar furðulegustu tillögur. Ég verð, virðulegur forseti, að kalla eftir því að þessari umræðu verði ekki fram haldið fyrr en hæstv. umhverfisráðherra, sá sem ber ábyrgð á þeim lögum sem hér er mjög um deilt hvort verið sé að fara eftir, sé við umræðuna. Það er alger lágmarkskrafa til þess að hér sé hægt að kalla eftir skýringum af hálfu hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnarmeirihlutinn sé að fara algerlega gegn stefnu Sigrúnar Magnúsdóttur, hæstv. umhverfisráðherra, og hvort hún telji, eins og ráðuneyti hennar taldi í minnisblaði frá 27. nóvember síðastliðinn til þingsins, að tillöguflutningur þessi standist ekki gildandi lög.

Virðulegi forseti. Ég verð að leggja á það áherslu að það er algerlega (Forseti hringir.) útilokað fyrir þingið að halda þessari umræðu áfram án þess að hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) sé við umræðuna.