144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það virðist liggja fyrir eftir kvöldið að málatilbúnaður hv. þm. Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, er ekki bara í andstöðu við fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra Sigurð Inga Jóhannsson, því það er hann augljóslega — þáverandi hæstv. umhverfisráðherra valdi að flytja tillögu byggða alfarið á skilum verkefnisstjórnar um Hvammsvirkjun eina, þannig að við hljótum að ætla, nema orðið hafi skoðanaskipti hjá honum, að hann sé áfram andvígur málinu — heldur bætist nú núverandi hæstv. umhverfisráðherra við. Og er endilega víst að þau séu tvö ein um þessa skoðun í Framsóknarflokknum? Og er ekki að verða komið nóg af málatilbúnaði af þessu tagi? Ég held það.

Virðulegur forseti. Það er varla hægt að ætlast til þess að við höldum áfram umræðum um málið. Ríkisstjórnin á að mínu mati engan annan kost en að kalla allan þennan málatilbúnað til baka. Hún getur þá mætt með tillögu hér aftur í haust, vonandi þá búin að koma sér saman um eitthvað, eða það sem væri enn gáfulegra, (Forseti hringir.) gefið verkefnisstjórn einfaldlega frið (Forseti hringir.) til að ljúka sinni vinnu, eitt til eitt og hálft tvö ár í viðbót, (Forseti hringir.) og skila svo málinu sómasamlega hérna inn.