144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að venja mig af því að nota hörð orð í þessari ágætu pontu, en ég verð að segja að þessi dagur er farinn að verða einn sá almesti farsi sem ég hef upplifað á Alþingi, þannig að það er orðið hálfkjánalegt, ef ég á að segja eins og er. Hér eru 14 þingmenn á mælendaskrá sem væntanlega mundu tala áfram til miðnættis, einn þeirra er úr stjórnarmeirihlutanum. En á sama tíma og þetta ágæta fólk á að ræða þetta hér ætlar hæstv. umhverfisráðherra, að því er virðist, að mæla sínu máli í fjölmiðlum. Ég velti því fyrir mér hvernig við eigum nákvæmlega að ræða þetta hérna. Eigum við að bíða eftir morgunfréttunum til að vita hvernig hæstv. umhverfisráðherra líst á okkar rök og hvað við höfum að segja um þetta mál? Hvernig á þessi umræða að fara fram, virðulegi forseti? Þetta er orðið út í hött. Þetta var orðið mjög hvimleitt fyrir þó nokkru síðan, en þetta er bara orðið kjánalegt, virðulegi forseti.