144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara vekja athygli forseta á því að nú vantar klukkuna korter í átta og flutt hefur verið ein ræða um þetta mál í þinginu í dag. Einni ræðu er lokið af fjölmörgum sem á eftir að flytja um málið. Það er ljóst að mjög hæpið er að meiri hluti sé fyrir þeim breytingartillögum sem atvinnuveganefnd er að koma með og hefur lagt hér fram. Hvað er það eiginlega sem hangir á spýtunni hjá hæstv. ríkisstjórn og hjá þessum stjórnarmeirihluta að setja þetta mál á dagskrá? Forsíðufyrirsögn DV í dag er: „Stóru málin strand.“ Þau eru ekki strand hér í þinginu eða í umræðum, þeim er ekki haldið í gíslingu í þessum sal. Nei. Þeim er haldið í gíslingu í ríkisstjórn, í fjármálaráðuneyti, í þingflokkum stjórnarflokkanna, þau komast ekki neitt vegna þess að það er fullkomið ósamkomulag á milli stjórnarflokkanna og engin verkstjórn er í ríkisstjórninni. Það er enginn sem ræður við (Forseti hringir.) að jafna ágreining á milli stjórnarflokkanna. Þess vegna er svona mál sett á dagskrá (Forseti hringir.) vegna þess að annars væri ekkert til að ræða hér. Það er ekkert mál frá ríkisstjórninni sem hægt er að ræða hérna (Forseti hringir.) nema einhver svona vitleysa frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni.