144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra verði hér við umræðuna. Ég vil biðja hæstv. forseta um að hleypa henni fyrst á mælendaskrá svo að hún geti komið inn í umræðuna og gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Það er pólitískt uppnám í þessu máli. Það er náttúrlega ótrúlega vandræðalegt að þurfa að hlusta á einhvern skæting og grín af hendi hv. formanns atvinnuveganefndar. Ég veit ekki hvort hann ætlar að fara að spyrja ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatímum hvað þeim finnist. Manni dettur nú í huga að staðan sé orðin þannig á stjórnarheimilinu að samskiptin séu líklega þannig að fólk þurfi að fara á mælendaskrá til að ræða hvert við annað í óundirbúnum fyrirspurnatímum. Það kann að vera.

Virðulegur forseti. Það dugar ekkert minna í þessu máli en að breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar verði dregin til baka og við snúum okkur að raunverulegum verkefnum sem þinginu eru samboðin. Þetta er fyrir neðan allar hellur.