144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmenn, félagar mínir í atvinnuveganefnd, opinberuðu sig algerlega áðan í umræðunni þegar þeir veifuðu því að þetta væri tillaga atvinnuveganefndar og vildu ekki kenna hana að neinu leyti við hæstv. ráðherra. Menn verða að ákveða sig í þeim efnum. Þegar gagnrýni kemur á það að hæstv. ráðherra sé að leggja fram eina tillögu samkvæmt tillögu verkefnisstjórnar og hæstv. umhverfisráðherra deili mjög á þessa framgöngu þá veifa þeir því að þetta sé bara þeirra tillaga, en ef þetta er tillaga atvinnuveganefndar þá er hún sjálfstæð tillaga sem menn eiga að fara með eins og önnur mál í þinginu. Ég held að menn ættu þá bara að dunda sér við að skrifa upp nýja tillögu og flytja hana á haustþingi og gera það eins og karlmenn en ekki koma með þetta í skjóli nætur til að gera allt vitlaust í þjóðfélaginu.