144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað stór tíðindi þegar umhverfisráðherra landsins kemur í sjónvarpsfréttir og segist ekki styðja þetta mál. Stjórnartillagan stafar frá ráðherranum og ráðherrann neitar stuðningi við hana. Það þýðir í sjálfu sér að hér er um að ræða tillögu nefndarmanna, það er alveg rétt sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson segir. Það er vert að minna hann líka á það að um hina upphaflegu tillögu hefði orðið mikill friður, stuðningur út fyrir raðir stjórnarflokkanna sem hv. þingmaður virðist hins vegar staðráðinn í að eyða og skemma.

Það er orðið brýnt í ljósi orða hæstv. umhverfisráðherra að fá nákvæma hausatalningu í stjórnarliðinu á því hvort tillagan nýtur stuðnings meiri hlutans á Alþingi og sérstaklega er orðið mikilvægt að sjá hverjir framsóknarmanna ætla(Forseti hringir.) að fylkja sér undir fána hv. þm. Jóns Gunnarssonar og hverjir ætla að standa með sínum umhverfisráðherra.