144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú lögvilla sem meiri hluti atvinnuveganefndar er haldinn í þessu máli er auðvitað sérstakt áhyggjuefni. Hann áttar sig ekki á því að hann er að fara út fyrir lögbundnar heimildir sínar samkvæmt lögum, vegna þess að í lögunum segir skýrt að það sé verkefnisstjórn sem fari með faglegt mat en það segir líka skýrt að í tilviki sem er sambærilegt við það sem gerðist á síðasta kjörtímabili eigi ráðherrar að leggja fram tillögu í framhaldi af umsögnum. Það er grundvallarmunurinn sem mér þykir mikilvægt að hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar fari að átta sig á.

Svo er það þannig að það hlýtur að þurfa að auglýsa eftir ábyrgð ríkisstjórnarinnar á því að koma hér inn með mál sem lúta að hagsmunum heimila og afkomu fólks þegar óvissa eykst á vinnumarkaði, þegar átök aukast í samfélaginu. Hefur þessi ríkisstjórn ekkert að boða? Hefur hún ekkert að leggja fram? Er engar úrlausnir að finna í skattamálum, í velferðarmálum sem skipta máli? Hvar eru lausnir í húsnæðismálum? (Forseti hringir.) Af hverju getur ríkisstjórnin ekki komið með mál (Forseti hringir.) sem einhverju skipta inn í þingið í staðinn fyrir að koma með mál sem meira (Forseti hringir.) að segja njóta ekki einhugs í stjórnarliðinu?