144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það sem innlegg í þessa umræðu að þetta málþóf minni hlutans er á mjög þunnum ís og lítið rökstutt. Til að taka af allan vafa, þá hefur því verið haldið fram í umræðunni að ekki sé meiri hluti fyrir þessu máli á þingi og að hér sé farið fram af offorsi og frekju en ekki í anda lýðræðis sem er nákvæmlega það sem við erum að gera. Við erum að leggja fram breytingartillögu okkar í krafti meiri hluta á þingi með fulltingi ríkisstjórnarinnar. Það er engin nýlunda og má rifja upp mörg svipuð atriði frá síðasta kjörtímabili þar sem einstaka þingmenn eða ráðherrar ganga jafnvel ekki alveg í takt í öllum málum. Það heyrir til undantekninga hjá þessari ríkisstjórn. Það á við í þessu máli hjá einum ráðherra en hún hefur [Kliður í þingsal.] þá sína skoðun en fulltingi ríkisstjórnarinnar og forustumanna ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) er algerlega heilt á bak við þessa breytingartillögu. Stjórnarandstaðan þarf ekki að hafa áhyggjur af því að það sé ekki meiri hluti á bak við þetta mál. (Forseti hringir.)

Ég bið fólk að láta af þessu málþófi hér og hefja málefnalega umræðu um þetta mál þannig að önnur góð mál sem (Forseti hringir.) við erum að kalla eftir geti komið sem fyrst á dagskrá. (Gripið fram í.)