144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það sýnir sig að umræðan um fundarstjórn forseta á rétt á sér þegar hv. þm. Jón Gunnarsson svarar með þessum hætti. Ég beini þeim orðum til hæstv. forseta að það dugi ekki lengur að fá hingað umhverfis- og auðlindaráðherra, við þurfum að fá aðra ráðherra líka til að staðfesta að þessi tillaga sé flutt með fulltingi ríkisstjórnarinnar. Það voru orðin sem hér voru sögð, fulltingi ríkisstjórnarinnar. Forustumenn beggja flokka, ég held að það sé mikilvægt að fá þá hingað í salinn til að staðfesta það.

Í öðru lagi ætla ég að óska eftir því við hæstv. ráðherra að hér verði 101 í rammaáætlunarkennslu svo að menn átti sig á hvert ferlið var og um hvað við vorum að ræða. Ef enginn hefur skilið ferlið þá er ástæða til að fara í smánámskeið í kringum það áður en það verður endanlega eyðilagt eins og stefnt er að.

Það er mál á dagskrá eftir þetta mál sem er líka mikilvægt en er þó búið að senda einu sinni til baka og (Forseti hringir.) endurbæta að verulegu leyti. Eigum við ekki að fara að snúa okkur að því og sleppa (Forseti hringir.) þessari umræðu þangað til menn fá betri skýringar á hvað (Forseti hringir.) hér er á ferli?