144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Á þessu fagra sumarkvöldi hér í Reykjavík þar sem er sól og bjart en kalt býður hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn upp á eftirfarandi á Alþingi:

Makrílfrumvarp sem mikil andstaða er við og 31 þúsund Íslendingar hafa skorað á forsetann að vísa því í þjóðaratkvæði.

Ríkisstjórnin ætlaði að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu en hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að það væri ekki hægt vegna andstöðu innan stjórnarflokkanna.

Húsnæðisfrumvarp hefur verið sent frá félagsmálaráðuneytinu með pakka af orkustöngum upp í fjármálaráðuneyti en situr þar fast. Annað húsnæðisfrumvarp er líka þar fast.

Bankasýslan hefur verið rædd hér í mikilli deilu. Framsóknarflokkurinn er á móti því að leggja hana niður og menn hafa beitt bolabrögðum til að koma því í rétta nefnd fram hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar, framsóknarmanninum Frosta Sigurjónssyni. Sama á við um hugsanlega bankasölu, Framsóknarflokkurinn hefur ályktað þar á móti.

Ríkisstjórnin býður líka upp á bréf frá hæstv. utanríkisráðherra um ESB til Evrópusambandsins, sem enginn skilur og hann kannski ekki heldur.

Afnám hafta hefur staðið til en er í miklum ágreiningi milli forustumanna ríkisstjórnarflokkanna þar sem hæstv. forsætisráðherra vill fara hálfgerða gjaldþrotaleið meðan hæstv. fjármálaráðherrann vill fara samningaleið.

Skuldaleiðréttingin, stærsta og mesta kosningaloforð sennilega heimsins ef miðað er við höfðatölu, var svikið á eftirminnilegan hátt þar sem 300 milljarðar áttu að koma frá svokölluðum hrægammasjóðum en urðu 80 milljarðar og tekið sem skattur og leggst nú á allan almenning í landinu með hærri vaxtamismun og alls konar gjöldum hjá bönkunum.

Náttúrupassinn. Hv. þingmaður margræddur, formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, hefur gefið út dánarvottorð fyrir náttúrupassann.

Flutningur Fiskistofu. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur verið rekinn til baka með það mál. Fiskistofa er í dag nær óstarfhæf vegna þess að þrettán starfsmenn hafa horfið af braut vegna óvissu. Fiskistofa hefur sagt: Við getum ekkert gert í því frumvarpi um makrílinn sem okkur er ætlað vegna þess að það er allt í uppnámi.

Þróunarsamvinnustofnun — það mál er í logandi illdeilum þar sem hæstv. utanríkisráðherra er í einhverri óskiljanlegri herferð gegn þeirri stofnun.

Sameining Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, sem ekki hefur verið mikið rætt um en það mál er í avinnuveganefnd, þar sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að breyta um kúrs við sameiningu stofnana með því að segja upp öllum starfsmönnum áður, hverjum og einum. Þetta er núna komið til atvinnuveganefndar sem minnisblað — þau eru fræg minnisblöðin sem koma til okkar í atvinnuveganefnd eins og við höfum orðið vitni að í dag. Og þar á sem sagt að segja öllum starfsmönnum upp, ný leið.

Logandi deilur á vinnumarkaði sem aldrei fyrr í Íslandssögunni í seinni tíð.

Kerfisáætlun var hér í mikilli andstöðu og miklum deilum en var tekin til nefndar fyrir 3. umr. og tókst að vinna aðeins meiri sátt um hana.

Og nú 16. atriðið, sem ég tel upp, rammaáætlun.

Virðulegi forseti. Ég var formaður iðnaðarnefndar þegar lög um rammaáætlun voru tekin hér í gegnum þingið, margrædd lög nr. 48/2011. Þar tókst okkur í nefndinni að mynda fulla samstöðu um breytingar á þeim lögum sem svo voru samþykkt samhljóða hér á Alþingi.

Ég bar þá von í brjósti að við værum að stíga stórt og mikilvægt skref í mjög umdeildum málum og málaflokkum sem höfðu valdið miklum deilum í landinu, værum að færa okkur til skipulegri og betri vinnubragða. Nei, það er aldeilis ekki miðað við þær tillögur sem hér eru komnar fram. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að það er alveg með ólíkindum hvað núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn er laginn við að setja allt í háaloft í þjóðfélaginu, ala á úlfúð, skapa ófrið, jafnvel stríð og miklar deilur.

Virðulegi forseti Ég ætla að mæla fyrir nefndaráliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar, sem ég skipa, um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141.

Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, voru samþykkt samhljóða, eins og ég hef áður sagt, á Alþingi í maí 2011. Með samþykkt laganna ákvað löggjafinn að setja niður lögbundið verklag við meðferð rammaáætlunar. Þar er skýrt kveðið á um hvernig skuli undirbúa breytingar á áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Með samþykkt laganna stóðu vonir til að draga mundi úr ágreiningi um einstaka virkjunarkosti þegar lögin hefðu tekið gildi og farið yrði að vinna eftir því ferli sem þar er lögfest og tiltölulega skýrt í lögunum.

Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir að verndar- og orkunýtingaráætlun taki til virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um og því býr það að baki að Alþingi taki ekki afstöðu til annarra kosta en fjallað hefur verið um af verkefnisstjórn. 1. minni hluti telur mikilvægt, þegar kostir eru færðir milli flokka í áætluninni eða nýjum bætt við, að farið sé að öllu leyti eftir því ferli sem lögin mæla fyrir um. Sé það gert telur 1. minni hluti meiri líkur á að ríkari sátt náist um áætlunina í heild.

Sú áætlun sem nú er í gildi var samþykkt á 141. löggjafarþingi. Áður en tillagan kom til umfjöllunar Alþingis hafði ráðherra, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lögin, borið að senda tillögur að flokkun sem komið höfðu frá formönnum faghópa verkefnisstjórnar í opið umsagnarferli. Að því umsagnarferli loknu tók ráðherra ákvörðun um að færa eftirfarandi kosti úr nýtingarflokki í biðflokk: Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun I og Hágönguvirkjun II. Gert var ráð fyrir því við afgreiðslu málsins á Alþingi að verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar mundi fjalla um þá kosti, þ.e. sú verkefnisstjórn sem nú er að störfum.

Í tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra nú er lagt til að Hvammsvirkjun verði færð aftur í nýtingarflokk eftir að verkefnisstjórnin hafði afgreitt þá tillögu til ráðherra. Og það er rétt að skjóta því hér inn, virðulegi forseti, að fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, treysti sér ekki til að leggja fram fleiri kosti en einn, og það er í samræmi við lögin að mínu mati.

Verkefnisstjórnin hefur því lokið umfjöllun um þann orkunýtingarkost eins og lög gera ráð fyrir. Því mótmælir 1. minni hluti harðlega að lögð sé fram tillaga um breytingu við þá þingsályktunartillögu sem gengur jafn langt og raun ber vitni. Tillaga meiri hlutans gengur í berhögg við lögin. Ekki eingöngu ákveður meiri hlutinn að bíða ekki niðurstöðu verkefnisstjórnar á endurmati á Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Skrokköldu heldur tekur hann einnig ákvörðun um að færa í nýtingarflokk tillögu um orkunýtingarkost sem verkefnisstjórn hefur ekki lokið við að fjalla um, þ.e. Hagavatnsvirkjun.

Í athugasemdum við þá tillögu sem nú liggur fyrir kemur fram að verkefnisstjórn hafi snemma í ferlinu orðið ljóst að ekki yrði mögulegt að afla gagna sem upp á vantaði til að leggja fyrir ráðherra endurskoðaða tillögu um nokkra orkunýtingarkosti, þar með talið Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Taldi hún sig meðal annars ekki hafa forsendur til að meta vafaatriði um þessa kosti án þess að hafa fullskipaða faghópa. Verkefnisstjórn gerði ráðherra þetta ljóst á fundum 8. október og 5. nóvember 2013. Í athugasemdum við tillöguna eru tilgreind þau atriði sem verkefnisstjórn telur að þurfi að afla nánari gagna um.

Verkefnisstjórn fjallaði um virkjunarkosti Þjórsár og skipaði meðal annars faghóp til að fara yfir nánar tilgreind gögn sem borist höfðu frá virkjunaraðila. Verkefnisstjórn lagði til í kjölfar vinnunnar að Hvammsvirkjun yrði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Þá tilgreindi hún hvaða atriði þyrfti að afla upplýsinga um til að unnt væri að taka afstöðu til mögulegrar færslu Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar milli flokka.

Fyrsti minni hluti bendir á að hluti þeirra kosta sem meiri hlutinn leggur til að færist í nýtingarflokk hefur ekki verið til umfjöllunar hjá þeirri verkefnisstjórn sem nú er að störfum sem var þó falið að fjalla um þá kosti samkvæmt því sem lögin kveða á um.

Þau varúðarsjónarmið sem hér að framan er lýst koma meðal annars fram í margfrægu minnisblaði skrifstofu iðnaðar- og orkumála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem er í fylgiskjali við álit þetta. Enn fremur má benda á minnisblað til nefndarinnar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti frá 27. nóvember 2014 þar sem fram kemur að ráðuneytið leggist alfarið gegn breytingartillögu meiri hlutans um Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í ljósi fyrri umfjöllunar verður að telja að þar sem verkefnisstjórn fjallaði ekki efnislega um fimm tilgreinda virkjunarkosti, þ.e. Skrokköldu, Hágöngur I og II, Hagavatn og Hólmsá v/Atley, eins og lög nr. 48/2011 gera ráð fyrir, séu umræddir virkjunarkostir enn þá í umfjöllun hjá verkefnisstjórn að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Verkefnisstjórnin hefur ekki skilað tillögu um flokkun þessara kosta til ráðherra og þingsályktunin sem nú liggur fyrir Alþingi tekur ekki til þeirra kosta.“

Svo kemur þessi gullvægi kafli frá umhverfis- og auðlindaráðherra — sem ég fagna mjög að sé kominn hér í salinn til þess að hlýða á mál mitt og annarra sem ræða þetta mál — en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.“

Virðulegi forseti. Þetta er minnisblað, þetta er lögfræðiálit frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Þetta er lögskýringargagn við þessa breytingartillögu sem ég segi alveg hiklaust að þeir aðilar sem eru ósáttir við þá leið sem meiri hlutinn ætlar að fara hér gætu kært. Þá held ég að það sé heldur betur kjöt á beininu fyrir þá sem hefja mál að vera með þetta lögfræðiálit frá umhverfis- og auðlindaráðherra og ráðuneytinu. Þarf frekar vitnanna við, virðulegi forseti, um að lögformlegu ferli samkvæmt lögunum hefur ekki verið fylgt?

Fyrsti minni hluti bendir einnig á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við málið þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnvart rammaáætlun hefur verið sú að stjórnvöld verði að leggja mikla áherslu á að ákvarðanir um flokkun virkjunarkosta séu byggðar á faglegum sjónarmiðum. Í rammaáætlun er leitast við að tryggja að langtímahugsun og mat á heildarhagsmunum hvað varðar orkunýtingu og vernd landsvæða ráði niðurstöðunni og að ákvarðanir séu sem minnst háðar því hvaða ríkisstjórn er við völd á hverjum tíma. Ákvörðunarferlið þarf að vera gegnsætt og vandað þannig að sem mest sátt geti orðið um niðurstöðu rammaáætlunar, ella er hætta á að virðing fyrir niðurstöðu rammaáætlunar verði lítil sem engin.

Með tilliti til framangreindra sjónarmiða mælir sambandið ekki með því að meiri hluti Alþingis samþykki tilfærslu virkjunarkosta, sem verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar hefur ekki tekið afstöðu til, úr biðflokki í nýtingarflokk.“

Virðulegi forseti. Fyrsti minni hluti vill jafnframt gera athugasemdir við það að ekki skuli hafinn undirbúningur að friðlýsingarferli þeirra kosta sem Alþingi hefur ályktað að setja í verndarflokk rammaáætlunar. Ef raunveruleg sátt á að skapast um rammaáætlun þá er mikilvægt að við framkvæmd þingsályktunarinnar sem samþykkt er á Alþingi í samræmi við áðurnefnd lög sé gætt jafnræðis milli verndar- og orkunýtingarflokks. Því mótmælir 1. minni hluti harðlega að ekki sé enn hafinn undirbúningur að friðlýsingu þeirra svæða sem eru í verndarflokki. En markmið laganna er vernd ekki síður en orkunýting. Í lögum nr. 48/2011 segir:

„Stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar.“

Þessu hefur í engu verið sinnt af hálfu núverandi ríkisstjórnar og hvetur 1. minni hluti ríkisstjórnina til að hefjast nú þegar handa við undirbúning friðlýsingar þeirra svæða sem finna má í verndarflokki rammaáætlunar.

Fyrsti minni hluti telur að standa eigi við þá verkferla sem samþykktir voru mótatkvæðalaust með samþykkt laga nr. 48/2011. Standa eigi með niðurstöðu verkefnisstjórnar og virða hana. Fyrsti minni hluti er því á móti breytingartillögu meiri hlutans og telur þá leið varasama, stuðla að enn meiri ófriði um málaflokkinn að óþörfu ásamt því að ganga gegn lögbundnum verkferlum sem líklegt er að kalli á löng og erfið eftirmál.

Þetta nefndarálit var gert á Alþingi 29. apríl á þessu ári og undirritað af þeim sem hér er, sem skipar 1. minni hluta nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera nú smákaflaskil í ræðu minni og spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra út í tvennt. Í fyrsta lagi það sem ég var að lesa upp hér í lok nefndarálits míns um verndarflokkinn. Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að fjármagn fáist fyrir það sem hefur verið raðað í verndarflokk og friðlýsingar- og verndarferlið hefjist? Eða á þetta að vera eins og það hefur verið í þessi tvö ár hjá hæstv. ríkisstjórn, ekkert gert í þessu?

Virðulegi forseti. Að mínu mati, ef lög um rammaáætlun eiga að skapa einhvern frið, en þá von ber ég alltaf í brjósti, verða orkunýting og vernd að hafa sama vægi, það má ekki taka bara orkunýtinguna.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem ég hef nefnt og það minnisblað sem ráðuneytið sendi nefndinni að beiðni nefndarinnar. Þar segir mjög afdráttarlaust að það sé mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lögin geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar og orkunýtingar hafi ekki átt sér stað. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra komi hér og svari þessum spurningum og leyfi okkur að heyra álit sitt. Um leið vil ég nota tækifærið og þakka henni fyrir hvað hún var afdráttarlaus í sjónvarpsfréttum í kvöld þar sem hún sagði að hún hefði helst viljað að tillaga forvera síns um Hvammsvirkjun mundi ein og sér standa. Til vara að Hagavatnsvirkjun og Skrokkölduvirkjun ættu alls ekki hér heima. Mér finnst mjög virðingarvert þegar þingmenn og ráðherrar tala svona hreint út eins og hún gerir.

Ég hef hér gert að umtalsefni minnisblað frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í fylgiskjali með mínu áliti er líka minnisblað frá skrifstofu iðnaðar- og orkumála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Það er vegna sömu beiðni hjá okkur í nefndinni til ráðuneytanna um að skila okkur áliti vegna þess að þá þegar í nefndinni komu fram efasemdir, m.a. frá mér og fleiri þingmönnum, um að hægt væri að gera þetta á þennan hátt án þess að hið lögbundna ferli ætti sér stað. Atvinnuvegaráðuneytið talar að vísu ekki jafn afdráttarlaust og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í minnisblaði sínu, en þó segir þar, með leyfi forseta:

„Um aðdraganda og undirbúning þess að þingsályktun er lögð fram á Alþingi er síðan fjallað með ítarlegum hætti í 9. og 10. gr. laganna (verksvið verkefnisstjórnar, verklag og málsmeðferð).

Lög nr. 48/2011 taka ekki á því hvaða heimildir Alþingi hefur til að gera breytingar á tillögu til þingsályktunar sem lögð hefur verið fram á grundvelli laganna. Almennt má líta svo á að þegar ráðherra hefur, samkvæmt 3. gr. laganna, lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar, þá sé málið alfarið á forræði Alþingis eins og gildir um tillögur til þingsályktana almennt, samanber lög um þingsköp Alþingis.“

Virðulegi forseti. Hér vil ég segja það að mitt mat er það að eftir allt lögformlegt ferli samkvæmt lögunum og ráðherra gerir tillögu til Alþingis, ef allt lögformlegt ferli samkvæmt lögunum er komið, þá verður það aldrei tekið af alþingismönnum að flytja breytingartillögur eða greiða atkvæði eftir eigin samvisku. Þeir geta þá breytt, en að mínu mati alls ekki fyrr en lögformlegt ferli hefur átt sér stað. Þess vegna er ekki hægt að fara svona einhverja stutta leið eins og meiri hlutinn ætlar að gera hér, vegna þess að lögformlegt ferli hefur ekki verið farið að mati okkar í minni hlutanum og að mati hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra.

Síðan er fjallað meira um þetta í minnisblaðinu frá atvinnuvegaráðuneytinu. Ég hef ekki tíma til að fara í gegnum það allt en vísa til þess sem þar kemur fram og vil segja í lokin um minnisblaðið að það er líka fullt af efasemdum gagnvart þessu ferli þó að þær séu ekki jafn ítarlega fram settar og hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. En í minnisblaðinu er að finna fullt af efasemdum og ég vil segja það, virðulegi forseti, að þetta er auðvitað líka lögskýringargagn. Ég get tekið undir mestallt sem þar kemur fram og ítreka það sem ég sagði áðan að ég geri mikinn greinarmun á hvort hið lögformlega ferli hefur átt sér stað eða ekki, vegna þess að það er alltaf hin lýðræðislega stofnun, Alþingi, sem hefur endanlegt vald og ítreka ég það enn einu sinni að það er eftir þetta ferli.

Virðulegi forseti. Í upphafi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007 setti þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson rammaáætlunarferlið aftur í gang. Það hafði verið lengi í vinnu, sennilega frá 1995 eða 1998, ef ég man rétt, en þarna var settur virkilega kraftur í málið. Svanfríður Inga Jónasdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, var skipuð formaður vinnuhópsins og þar átti sér stað frábær vinna, sem endaði með því að tillögurnar komu fram. Í millitíðinni eru þessi umræddu lög sett. Í byrjun var engin sátt um það frumvarp. En eins og ég sagði í upphafi máls míns þá tókst í þáverandi iðnaðarnefnd að leiða fulltrúa allra flokka til samstöðu um breytingar á frumvarpinu og gera það að lögum. Ég sagði þá sem framsögumaður nefndarálits nefndarinnar að með því vonaðist ég til að okkur hefði tekist að stíga stórt og mikilvægt skref til frekari sátta í þessum málaflokki.

Það er fjallað um það, ef ég man rétt, í áliti meiri hlutans að ef til vill sé ástæða til að fara aðeins í gegnum þessi lög sem eru búin að vera í gildi í fjögur ár og endurskoða þau. Það getur vel verið að reynslan hafi sýnt að við þurfum að hnykkja á einhverjum þáttum þar eða skilgreina betur. Það væri þá óskandi að það tækist.

Virðulegi forseti. Á lokamínútum mínum langar mig að fjalla aðeins um að í 10. gr. frumvarpsins, þegar það var sett fram, var fjallað um verkefni og verkferla. Í minnisblaði ráðuneytisins, sem er lögskýringartexti með frumvarpi sem er orðið að lögum, segir um 10. gr., með leyfi forseta:

„Þá er í 3. mgr. 10. gr. mælt fyrir um ákveðið lögbundið ferli sem á að fara fram áður en endanlegar tillögur verkefnisstjórnar eru lagðar fyrir ráðherra.“

Virðulegi forseti. Það er mælt fyrir í 3. mgr. um ákveðið lögbundið ferli sem á að fara fram áður en endanlegar tillögur verkefnisstjórnar eru lagðar fyrir ráðherra. Og þarna er líka fjallað um í öðrum málsgreinum hvernig ráðherra skal fara með, af því að hann er ekki bundinn af tillögum verkefnisstjórnar, hann getur breytt tillögum hennar, en þá ber honum að auglýsa þá breytingu. Nefndin lengdi á sínum tíma umsagnarferlið úr átta vikum í tólf, vegna þess að talið var að áhugamannafélög og fleiri sem vildu veita umsagnir þyrftu lengri tíma. Það var gert. En þá þarf ráðherra líka að auglýsa öll undirgögn með þannig að allur almenningur, allir geti gert athugasemdir, ekki bara félagasamtök, því í lögunum og í skýringum er talað um að allir sem vilji láta sig málið varða geti gert athugasemdir eða skilað inn umsögnum.

Í 10. gr. og mörgum fleiri málsgreinum er fjallað um það lögbundna ferli sem á að eiga sér stað. Á því byggist gagnrýni mín gagnvart þessu. Í raun og veru vil ég segja að þegar ég var búinn að lesa þetta allt yfir ásamt minnisblöðum tveimur sá ég það í hendi mér að vafinn var allt of mikill til þess að hægt væri að mæla með þessari leið. Og eins og ég hef áður sagt: Ef einhverjir fara í mál út af þessum breytingartillögum hér og segja: Það hefur ekki farið fram lögformlegt ferli samkvæmt lögunum o.s.frv., þá eru þetta allt saman lögskýringargögn.

Hvað hefur þá gerst með þessu? Jú, upphaflega tillagan um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki upp í nýtingarflokk getur fallið þar undir og seinkað þeirri framkvæmd um einhver ár. Og gagnrýni mín er meðal annars sú, vegna þess að ég tek undir það sem hér hefur komið fram að við hefðum getað klárað fyrir jól þingsályktunartillöguna um Hvammsvirkjun eins og hún var lögð fram. Ég segi fyrir mitt leyti: Að sjálfsögðu hefði ég stutt hana. Ég vil sjá fleiri vatnsaflsvirkjunarkosti í nýtingarflokki og færri jarðvarmakosti. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og skal endurtaka það. Mér finnst fullkomlega galið að Eldvörpin séu í nýtingarflokki. Þau eiga að vera í verndarflokki. Sama vil ég segja um Sveifluháls. En þetta var niðurstaðan. Og þess vegna segi ég að við eigum að fara með vatnsaflsvirkjanirnar í gang og þess vegna, eins og ég segi, styð ég tillöguna um Hvammsvirkjun.

Sannarlega vantar okkur orku, ekki bara fyrir stóriðju, okkur vantar orku fyrir almenning, ferðaþjónustufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki á Norðausturlandi verða að brenna svartolíu vegna þess að þau fá ekki rafmagn og svona má lengi telja. Þjóðir heims nýta auðvitað auðlindir sínar til að skapa betra þjóðfélag, skapa tekjur til að nýta t.d. í félagsmál og heilbrigðismál og annað, breyta þeim helst í útflutningstekjur, ekki veitir okkur Íslendingum af. En lög um rammaáætlun áttu að vera til að skapa ferli sem meiri sátt átti að vera um, taka út þau deiluatriði sem m.a. endurspegluðust í umræðunni um Kárahnjúkavirkjun.

Virðulegi forseti. Ég óttast að þessi flumbrugangur seinki þessu ferli. Og ég hika ekki við að halda því fram að ef við hefðum klárað Hvammsvirkjun eina og þessar breytingartillögur hefðu ekki komið fram fyrir jól væri búið að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk og vinna og undirbúningur væri hafinn. Við skulum alltaf hafa það, virðulegi forseti, í huga að þó að eitthvað sé samþykkt í nýtingarflokk í rammaáætlun þá er umhverfismatið eftir. Það er ekki þar með sagt að hlutir verði virkjaðir. Það getur ýmislegt gerst í umhverfismatsferli sem gerir að verkum að viðkomandi virkjun fellur út.

Virðulegi forseti. Ég hvet þingmenn og sérstaklega stjórnarmeirihlutann til að lesa 9. og 10. gr. vegna þess að þar eru skýringar á þeim um hvað löggjafinn ætlast til að gert sé við undirbúning að þingsályktunartillögu um röðun í flokka. Það er skýrt í mínum huga, alveg skýrt. Og þess vegna harma ég þetta og ítreka það sem ég segi: Ég óttast það að þetta seinki öllu ferlinu.

Virðulegi forseti. Margt fleira mætti segja um þessar greinar sem ég hef hér gert að umtalsefni en þar sem ég þurfti að gera grein fyrir mínu nefndaráliti þá kem ég að því síðar. Ég á örugglega eftir að halda eina eða tvær eða jafnvel fleiri ræður um þetta mál (Gripið fram í.) vegna þess að mér er það hugleikið. Þetta er mér hjartans mál. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel þörf á að nýta auðlindir til virkjunar á ákveðinn hátt en ég vil ekki sjá allar virkjanir og þess vegna átti þetta ferli að vernda ákveðin svæði. Ég get líka sagt í lokin og held ég hafi sagt það áður, af því að ég hef talað um Eldvörpin og ég hef talað um Sveifluháls, að ég er stórefins um Urriðafoss. Mér þótti það mjög merkilegt þegar ég spurði fulltrúa Landsvirkjunar í ferð atvinnuveganefndar á þetta svæði hvað virkjunin mundi minnka í megavöttum talið ef fallið yrði tekið ofar þannig að fallvatnið kæmi út og mundi vernda fossana. Mér kom á óvart hvað mönnum kom þessi spurning í sjálfu sér á óvart. Og það er hlutur sem á að skoða. En við skulum ekki gleyma því að þessir fossar eru fallegir og rammaáætlun á líka að sjá um nýtingu á auðlindasvæðum til verndar til að hafa fyrir ferðamenn, okkur sjálf og börnin okkar.