144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Hún fjallar eðlilega um friðlýstu svæðin sem ég gerði dágóð skil í nefndaráliti mínu og gagnrýndi mjög núverandi ríkisstjórn fyrir að veita ekki fjármuni í þessi friðlýsingaráform og friðlýsingu sem Alþingi hefur tekið ákvörðun um. Hv. þingmaður spyr: Er það leið til frekari sátta ef ríkisstjórnin gerir ekkert með friðlýsingar- eða verndarflokkinn? Nei, það er ekki fallið til sátta. Ég sagði í ræðu minni: Ríkisstjórnin verður að tryggja það sem Alþingi samþykkir og veita til þess fé. Orkufyrirtækin hafa fé til að fara í það sem sett er í nýtingarflokk. Alþingi og ríkisstjórn verða að sjá um að veita fé til þess sem á að vernda og það er það sem ríkisstjórnin á að gera. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra sem situr í salnum og bíð spenntur eftir að heyra svar hennar.