144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir laxastofninn í Þjórsá að umtalsefni í seinna andsvari við mig og það ákvæði sem var sett inn við síðustu áætlun að hann þyrfti að rannsaka betur. Þess vegna voru virkjanirnar ekki settar í nýtingarflokk eins og verkefnisstjórnin hafði lagt til. Við í atvinnuveganefnd einni saman og líka þegar við funduðum með umhverfis- og samgöngunefnd áður en þingsályktunin var samþykkt, þ.e. í seinna skiptið, höfum hlustað á aðila ræða um þetta. Ég tek mikið mark á sveitunga mínum, Orra Vigfússyni, miklum laxasérfræðingi, sem er með aðvörunarorð um þetta og að stofninn sé ekki fullrannsakaður. Þar á eftir gætu svo komið fulltrúar frá Veiðimálastofnun sem í raun og veru segja okkur allt annað, sem segja okkur að þetta sé rannsakað, það sé komin reynsla af laxastigum o.fl., m.a. í Bandaríkjunum, og að hægt sé að gera mótvægisaðgerðir sem væru þannig að þær mundu ekki skemma laxastofninn í Þjórsá.