144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:55]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var sem sagt sáttur við að færa þessa vatnsaflskosti niður í bið.

Hann minntist á Eldvörpin. Mig langar að spyrjast aðeins fyrir um þau, þessa náttúruperlu á Reykjanesinu. Hvernig stóð á því að hv. þingmenn, sem er svona annt um náttúruna, opna á nýtingu á þessa náttúruperlu? Það er bara fyrir tilstuðlan bæjarstjórnar Grindavíkur sem Eldvörpin eru vernduð.

Ég er með minnisblað frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem ég hefði kosið að hv. þingmaður hefði lesið allt en ekki bara pikkað út það sem honum hentaði. Hérna er klausa sem segir:

„Ljóst er því að Alþingi getur gert breytingar á þingsályktunartillögum sem lagðar eru fyrir þingið.“ (Forseti hringir.)

Það leikur enginn vafi á því að eftir að þingsályktunartillaga er komin í þingið er það meðferð Alþingis sem ræður.