144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek mig stundum til á Alþingi og reyni að finna út úr svona ráðgátum, en eins og hv. þingmaður er ég engu nær hvað varðar Hagavatn. Þá spyr ég líka hv. þingmann sem þekkir málið talsvert betur en ég: Ef sú réttlæting sem kemur fram í úrskurði virðulegs forseta og sú röksemdafærsla sem til dæmis hv. 5. þm. Suðurk. hefur hér borið á torg úr pontu stenst, að þessi breytingartillaga sé lögmæt og í samræmi við ferlið, hvaða kostir væru þá ekki í stöðunni? Hvað gæti hv. 5. þm. Suðurk. eða hv. formaður atvinnuveganefndar lagt til sem breytingartillögu sem væri ekki í samræmi við formið?

Einhvern veginn sýnist mér að ef þetta má megi allt, þá sé alveg sama hvað mönnum detti í hug að setja inn sem breytingartillögu. Ef svo er verður maður að velta fyrir sér til hvers þessi rammaáætlun hafi verið hugsuð til að byrja með. Og þá velti ég því fyrir mér hvernig menn hafi hugsað sér að farið yrði með breytingartillögur þegar upphaflega var farið í það verkefni að setja á rammaáætlun sem upprunalega var mjög góð hugmynd og mikilvæg og er vonandi ekki komin algjörlega út um þúfur.