144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr mig út í formið og ferilinn. Kannski er eðlilegt hjá ungum og nýjum þingmanni að reyna að komast til botns í þessum flókna ferli.

Grundvallaratriðið er það sem ég gat um í nefndaráliti mínu, og fór út fyrir álitið í mínum töluðu orðum, um 9. og 10. gr. og hvet hv. þingmann til að lesa það með frumvarpinu eins og það var lagt fram. Þar segir ráðherrann, sá sem lagði tillöguna fram, hvað hann er að hugsa og hvaða ferill á að vera. Þá er það alveg klárt með verkefnisstjórnina, faghópana, auglýsingar, opin ferli þar sem allir geta sent inn athugasemdir og fengið svar og verkefnisstjórnin sest svo yfir aftur líkt og gert var undir forustu Svanfríðar Ingu Jónasdóttur á sínum tíma.

Að lokum kemur tillaga hingað til Alþingis. Eins og ég hef margoft sagt getur Alþingi engu breytt fyrr en allur þessi lögformlegi ferill hefur verið varðaður. Atvinnuvegaráðuneytið segir í sínu minnisblaði að Alþingi gæti tekið tillöguna um Hvammsvirkjun, sem er um að setja í nýtingarflokk, og sagt þess vegna: (Forseti hringir.) Nei, við viljum hafa hana í vernd eða áfram í bið, vegna þess að hinn lögformlegi ferill er allur búinn.