144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svar hv. þingmanns er forvitnilegt. Af sama meiði vil ég taka fram að í lögum um verklag verkefnisstjórnar segir:

„Að fengnum niðurstöðum faghópa vinnur verkefnisstjórn drög að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina. Hún skal leita samráðs við almenning og umsagna um drögin hjá viðeigandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum og hagsmunaaðilum.“

Það kveður á um umsagnarfresti o.s.frv. og svo er tekin afstaða.

Hér er um að ræða hvorki meira né minna en að teknir eru fjórir virkjunarkostir algjörlega fram hjá öllu þessu samráðsferli. Það er hið grófa brot sem felst í þessari málsmeðferð hjá meiri hluta nefndarinnar sem varð ber að því hér í dag og hefur ítrekað orðið ber að því að skilja einfaldlega ekki þann lagabókstaf sem hér er unnið eftir, skilja ekki hlutverk sitt í þessum efnum og fer þess vegna langt út fyrir sitt valdsvið.