144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þessi þingstörf verða vandræðalegri með hverri mínútunni sem líður. Í upphafi þingfundar lá fyrir tillaga sem felur það í sér að hér er verið að gera róttækar breytingar á þingsályktunartillögu umhverfis- og auðlindaráðherra af hálfu atvinnuveganefndar. Það á að bæta fjórum virkjunarkostum við þann eina sem verkefnisstjórnin hefur skilað af sér.

Í kvöldfréttum kemur í ljós að umhverfis- og auðlindaráðherrann sjálfur styður ekki breytingartillögur atvinnuveganefndar. Hvað erum við þá að gera hérna? Ég skil ekki hvers vegna fundi er ekki slitið og farið yfir það hvert menn ætla með þetta mál. Það hlýtur að skýra fjarveru stjórnarþingmanna úr þessum sal að það séu neyðarfundir í stjórnarflokkunum vegna málsins þar sem menn lögðu af stað í einhvern leiðangur án þess að vera búnir að tryggja sér stuðning við málið. Við erum höfð að fíflum (Forseti hringir.) með því að láta okkur standa í ræðustól að tala um mál sem er öruggt að mun ekki fara óbreytt hér í gegn — og við höfum eina umræðu til þess.