144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka til máls um fundarstjórn forseta eins og fleiri sem hingað hafa komið þessar síðustu mínútur. Ég fagna því að hæstv. umhverfisráðherra er komin á mælendaskrá og tel það vel. Ég átti reyndar von á því að hún mundi veita hv. þm. Kristjáni L. Möller andsvar þar sem hann beindi til hennar tveimur mjög konkret spurningum. Það kom mér eiginlega á óvart að hæstv. ráðherra skyldi ekki sjá sér fært að fara í andsvar við þingmanninn sem var með mjög innihaldsríka og málefnalega ræðu. En það er vel ef hæstv. ráðherra kemur í ræðu á eftir og fer jafnvel í andsvör við þann sem kemur næstur og flytur nefndarálit 2. minni hluta.

Það er mjög mikilvægt í þessu máli, sérstaklega í ljósi þess hversu umdeilt það er, ekki síst í ljósi þess sem kom fram í kvöldfréttum hjá hæstv. umhverfisráðherra, að fá hennar skoðun á málinu og henni sé haldið til haga í umræðunni og samskiptum við okkur, stjórnarandstöðuþingmenn. Ég mundi vilja sjá fleiri þingmenn, (Forseti hringir.) bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, taka til máls í þessari umræðu en ekki bara stjórnarandstöðuna.