144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Sem framsögumaður 1. minni hluta atvinnuveganefndar þar sem ég flutti nefndarálit mitt og bætti örlitlu við hinn skrifaða texta verð ég að segja alveg eins og er að ég var líka dálítið svekktur og undrandi yfir því að hæstv. umhverfisráðherra sem var í salnum, að mér fannst allan tímann, skyldi ekki nýta sér þann rétt að koma í andsvar til að liðka fyrir og flýta fyrir umræðu með því að svara spurningum sem lagðar voru fram.

Ég á að mig minnir þriggja ára ráðherraferil og ég man eftir því, það var að vísu á mjög miklum umbrotatímum, að þegar ég flutti mál sat ég yfir þeim og tók þátt í umræðum, m.a. til að svara spurningum þingmanna í andsvörum til að liðka fyrir. Þetta virðist vera orðin algjör undantekning hjá ráðherrum í dag, en ég virði það mjög við hæstv. ráðherra að sitja hérna núna og ég fagna því (Forseti hringir.) að ráðherrann sé komin á mælendaskrá. Það er rétt sem forseti segir, umsjónarráðherra með máli getur hvenær sem er komið inn í mælendaskrá. Ég bíð spenntur eftir ræðu hennar.