144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur eiginlega sem betur fer tekið af mér ómakið við að setja sig á mælendaskrána þótt ég taki undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, að það færi best á því að hún kæmist þegar að. Ég er sammála forseta um að við venjulegar aðstæður væri eðlilegt að hún kæmist ekki að fyrr en framsögumenn nefndarálita hefðu flutt sínar ræður en þetta eru engar venjulegar aðstæður.

Ég vil hins vegar auka því við áður en hæstv. ráðherra kemur í ræðustólinn að yfirlýsing hv. þm. Jóns Gunnarssonar um að hann hafi stuðning þeirra sem máli skipta í málinu, og mér heyrðist það vera stuðningur forustumanna ríkisstjórnarinnar, vekur óhjákvæmilega mjög áleitnar spurningar um stöðu hæstv. umhverfisráðherra ef það ber að skilja formann atvinnuveganefndar svo að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson styðji tillöguflutning Jóns Gunnarssonar og félaga í málinu en ekki sinn eigin umhverfisráðherra. Það kallar á að umhverfisráðherra geri sér grein fyrir því hver staða hennar í ríkisstjórn er og hvort hún nýtur þar yfir höfuð trausts.