144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Nei, því miður ber nú hugurinn menn oft hálfa leið sem áfjáðir eru í að virkja og komast yfir virkjunarkosti og menn fara þar ekki því miður alltaf með það sem sannara reynist. Mér finnst það eiga við í þessu tilfelli og finnst það ljótur leikur þegar í raun er verið blekkja heimamenn í þessum efnum.

Í umsögn frá Skipulagsstofnun um Hagavatnsvirkjun, sem er sem sagt í biðflokki samkvæmt gildandi rammaáætlun, segir, með leyfi forseta:

Í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar er lagt til að Hagavatnsvirkjun færist úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Enginn rökstuðningur er settur fram með tillögunni. Jafnframt liggur fyrir, samanber upplýsingar að ofan, að því faglega mati verkefnisstjórnar sem áskilið er í lögum um rammaáætlun er ekki lokið hvað varðar Hagavatnsvirkjun.