144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafa skal það sem sannara reynist. Aðeins að því sem hv. þingmaður sagði um seiðafleytur, að þær virki ekki í Kólumbíuánni. Það kom einmitt fram hjá Veiðimálastofnun að seiðafleytur í Kólumbíuánni voru náttúrlega ekki settar upp þegar virkjanirnar voru byggðar, þessar virkjanir voru mest byggðar á árunum fyrir og í kringum seinna stríð. Nú hafa fleyturnar aftur á móti orðið til þess að endurheimta laxinn en þær voru settar upp löngu eftir að laxastofninn var hruninn.

Það er áhugavert í sjálfu sér að hlusta á hv. þingmann fara hér yfir stóriðjuna og ástæða til að spyrja hv. þingmann aðeins um hana. Síðasti fjárfestingarsamningur vegna stóriðju sem samþykktur var í gegnum Alþingi, ef ég man rétt, er samningurinn um stóriðju á Bakka, sem fór í gegnum Alþingi undir forustu Vinstri grænna. Nú eru virkjunarframkvæmdir í fullum gangi á Þeistareykjum vegna þess orkufreka iðnaðar sem er að rísa á Bakka. Ég vil inna þingmanninn eftir skoðun hennar á því hvort það hafi þá verið tómt rugl sem samþykkt var hér á síðasta kjörtímabili.

Það er líka áhugavert að rifja upp deilurnar um Neðri-Þjórsá. Í verkefnisstjórninni í rammaáætlun 2 var talað um að fyrstu gangsetningar í Neðri-Þjórsá yrðu árið 2015 og 2016. Þáverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, neitaði síðan að samþykkja aðalskipulag sveitarfélaganna á þessu svæði, lenti í því að vera dæmd í Hæstarétti vegna þess máls, en það var þannig sem þessir virkjunarkostir fóru í rammaáætlun, komið var virkjunarleyfi fyrir þeim og var búið að takast á um þá í umræðum meðal heimamanna og þau sjónarmið urðu ríkulega ofan á (Forseti hringir.) að virkjunin ætti að verða að veruleika. En það væri fyrst og fremst áhugavert að heyra viðbrögð hv. þingmanns vegna stóriðjunnar á Bakka.