144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þingmanni er umhugað um stóriðjuna og er talsmaður hennar hér inni. Ég hef sagt það og segi enn að mér finnst vera komið alveg gott af stóriðju í landinu og við eigum að staldra við. Uppi voru mikil áform um álver á Bakka sem tók miklu meiri orku en það kísilver sem verið er að reisa þar núna, tvöfalt meira. Þess vegna taldi ég það vera skárri kost en að fara út í álver sem átti síðan að tvöfalda í framhaldinu og hefði tekið miklu meiri orku en áætlað er að þurfi í þessu kísilveri og mengað meira.

Ég er ekki ginnkeypt fyrir fleiri stóriðjum á Íslandi og hef aldrei verið ginnkeypt fyrir þeim. Ég tel að við getum gert svo ótal margt annað sem þjóð en að reisa hér fleiri stóriðjuver. Ég held að það sé ekkert endilega eftirspurn eftir því hjá ungu fólki á Íslandi að vinna við stóriðju, að það sé draumastarfið til framtíðar. Ég ber virðingu fyrir öllum þeim störfum sem unnin eru í stóriðju í dag, en við þurfum líka að horfa til fjölbreyttari uppbyggingar en verið hefur hjá þeim flokkum sem verið hafa við völd allt of lengi, í tvo áratugi, þar sem stórkarlaleg atvinnustefna ræður ríkjum og menn keyra á stóriðju eins og ekkert annað geti þrifist hér á landi en slíkt.

Varðandi Kólumbíufljótið þá virkuðu þær seiðafleytur ekkert allt of vel og það er ekki hægt að yfirfæra þá reynslu í ár á Íslandi, það hefur líka komið fram.