144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að rifja það aðeins upp, af því að hér hefur verið talað um að við séum að kasta sprengju inn í verkfallsátökin sem eru í samfélaginu, að í umsögn ASÍ frá árinu 2012 er hvatt eindregið til þess að virkjanir í Neðri-Þjórsá, Skrokkalda og Hágöngur I og II verði settar í nýtingarflokk sem fyrst, meðal annars til þess að efla atvinnustarfsemi í landinu. Ég held út frá því að menn þurfi nú ekki að hafa áhyggjur af þessu máli.

Já, Bakki, kísilmálmverksmiðja er skárri kostur en álver. Já, kísilmálmverksmiðjur eru vissulega aðeins minni að umfangi en þær menga átta sinnum meira á framleitt tonn en í álframleiðslu. Það er skárri kostur að mati umhverfissinnanna í Vinstri grænum miðað við þetta. En kíslmálmverksmiðjur eru svo sem sú stóriðja sem lögð er áhersla á að byggja upp núna. Það eru að rísa tvær í Helguvík. Er þá hv. þingmaður á móti því að sá orkufreki iðnaður rísi af því að það er ekki norður í landi eða vestur á fjörðum? Það stendur til að reisa stóra verksmiðju á Grundartanga, (Forseti hringir.) sólarkísilverksmiðju, sem verður ekki nein mengun af samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og fleiri. Gæti þingmaðurinn verið sáttur við þá 100 milljarða fjárfestingu (Forseti hringir.) sem skapar 400 störf og útflutningsverðmæti upp á um 50 milljarða á ári?