144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:35]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hér er næstur á mælendaskrá hæstv. umhverfisráðherra og ætlar að skýra sína hlið á þessu máli og kannski fjalla um þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra gaf í kvöldfréttum. Mér finnst nú ekki vera mikill bragur á því að hæstv. ráðherra flytji ræðu sína þegar klukkuna vantar 25 mínútur í 11 að kvöldi dags. Er ekki ástæða til að fresta fundi og hefja þessa umræðu á morgun og við gætum þá rætt þessi mál í dagsbirtu?

Upplifun mín af þessum degi er sú að hér hafi heilum degi verið eytt í algera vitleysu, heilum degi er sólundað í algert bull þegar ekki eru margir dagar eftir af þessu vetrarþingi. Það hefur ekkert komið út úr þessu og það mun ekkert koma út úr þessu, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson. (Forseti hringir.) Það hefur ekkert af viti komið út úr þessum degi. Þetta er bara (Forseti hringir.) þinginu til mikillar skammar og þessum stjórnarmeirihluta að hafa ákveðið að setja þetta mál á dagskrá hérna þegar ástæða væri til að taka mörg önnur og miklu þarfari mál hér á dagskrá.