144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Miðað við vandræðaganginn hér í dag væri meiri bragur að því út á við ef við mundum opna fundinn á morgun, í dagsbirtu, á því að fá yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra, hún fengi að tala að degi til en ekki þegar farið er að líða að miðnætti. En það er svo sem eftir öðru hjá þessum þingmeirihluta og stjórn þingsins að þessum fundi verði fram haldið með þeim hætti sem áætlað er.

Í dag hefðum við getað eytt tíma í að ræða með hvaða hætti við ætlum að bæta lífskjör þess fólks sem nú er hér í tugþúsundavís í verkföllum, fólks sem er að kalla eftir því að lífskjör þess og lífsafkoma verði bætt. Það gætum við gert með því að ræða hér skattkerfisbreytingar sem komið geta þessum hópum til góða, rætt hér húsnæðismál, rætt hér til dæmis lækkanir á afborgunum námslána og fleiri slík mál sem koma þessum hópum til góða sem kalla núna á athygli okkar með verkföllum. Hvernig er því svarað? Það sem liggur eftir okkur eftir (Forseti hringir.) þennan dag er svar þingmeirihlutans (Forseti hringir.) við ákalli þessa fólks.