144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Já, ég er algerlega sammála hv. þingmönnum um að búið sé að eyða þessum degi í algera vitleysu. Málþóf er yfirleitt alger vitleysa og það er eina skýra nafnið á því sem hér fer fram, það er málþóf af hálfu minni hlutans. Lýðræðinu er hér gefið það nafn að vera ofríki meiri hlutans, það var kallað það af hv. þm. Helga Hjörvar. Það heitir orðið ofríki meiri hlutans þegar meiri hlutinn kemst að því í lýðræðislegri ákvörðun sinni að þetta mál skuli ræðast. (Gripið fram í.)

Fólk hefur haft áhyggjur af því hér að við séum að draga úr velferð (Gripið fram í.) í samfélaginu með máli eins og þessu hér, en það er náttúrlega öllum ljóst að ekkert bætir betur lífskjör þjóðar og fólks en öflugt atvinnulíf og raunveruleg verðmætasköpun og það er nákvæmlega það sem við ræðum hér. Það er það sem bætir lífskjör fólks í þessu landi og þarf ekki annað en að vitna í verkalýðsforingjann Vilhjálm Birgisson, Verkalýðsfélagi Akraness, sem oft hefur talað um hversu mjög svo stórfyrirtækin uppi á Grundartanga hafi bætt (Forseti hringir.) lífskjör fólks á því svæði. (Forseti hringir.)

En varðandi ráðherrann, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) er ég alveg viss um að það má semja við hæstv. ráðherra um það að hleypa (Forseti hringir.) öðrum fram fyrir sig það sem eftir lifir kvölds og koma hér inn á morgun og ræða málin. (Forseti hringir.) Hún er örugglega tilbúin í það. Hún er samningslipur, hún Sigrún.