144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er nú helst að núverandi ríkisstjórn nái sér á flug ef hún er að tala illa um gjörðir fyrri ríkisstjórnar. Það er mikil fortíðarþrá í þessari ríkisstjórn og ég er inni á sömu lendum og aðrir hv. þingmenn hér og finnst það vera með ólíkindum að verið sé að bjóða upp á vinnubrögð sem þessi á þinginu. Við erum ekki að tala um neitt smáræði. Við erum að tala um leikreglurnar um hvernig við förum með náttúru Íslands og nýtingu orkuauðlinda. Við erum að tala um hálendið. Samfylkingin sem stjórnmálaflokkur hefur til dæmis ályktað um friðun þess eða um þjóðgarð þar. Landvernd ályktaði um það á fundi sínum um síðustu helgi. En hv. þm. Jón Gunnarsson og fylgisveinar hans vilja markaðsvæða þessi öræfi sem við eigum öll saman og eigum að fá að njóta um aldir alda.