144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst nálgun hv. þm. Jóns Gunnarssonar gagnvart þessu máli alveg með ólíkindum. Menn reyna að halda því fram að þeir séu að vinna með tillöguna frá ráðherranum. Við erum látin halda það hér að þetta sé allt gert með afar faglegum hætti en síðan koma í ljós álit þar sem því er beinlínis haldið fram af tveimur ráðuneytum að lögin séu sniðgengin og að málið hafi varla fengið umfjöllun í nefndinni vegna þess að menn ætluðu að troða þessum tillögum í gegn með einum eða öðrum hætti. Það er gert með þeim hætti að við fáum eina umræðu um málið hér. Það eru ekki vinnubrögð sem mér líkar við.

Þá kemur hv. þingmaður hér upp og talar eins og hann geti sagt hvernig haga eigi þinghaldi og heldur því fram (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra skipti engu máli í þessu, að hún sé léttvæg þegar kemur að því að afgreiða (Forseti hringir.) þetta mál og talar þannig niður til þeirrar ágætu konu héðan úr ræðustól. Mér finnst vondur bragur á því. Ég held að það verði að stöðva þennan fund og reyna einhvern veginn að (Forseti hringir.) ná áttum í málinu og hefja fund hér með myndarbrag aftur á morgun.