144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst merkilegt að farið sé að tala um málþóf á fyrsta degi umræðu, sem mér hefur raunar fundist nokkuð gagnleg. Mér hefur fundist nokkuð gagnlegt að átta mig á því að hv. þingmenn, fulltrúar meiri hlutans, virðast ekki hafa kynnt sér þau gögn sem við erum að vísa í þegar við drögum í efa að þessi breytingartillaga sé þingtæk, þeir virðast ekki kannast við þau gögn sem hafa verið til umfjöllunar í nefndinni. Mér finnst áhugavert að heyra að hv. fulltrúar meiri hlutans halda því hér fram að Hagavatnsvirkjun hafi verið samþykkt af verkefnisstjórn í nýtingarflokk þegar um var að ræða samþykkt eins faghóps. Mér finnst mjög áhugavert að heyra hvernig vinnu hv. þingmanna meiri hluta atvinnuveganefndar Alþingis hefur verið háttað. Mér finnst þessi umræða í dag hafa afhjúpað það mjög vel og það er mjög gagnlegt fyrir framhaldið því að það er alveg ljóst að við hv. þingmenn sem tökum þátt í þessari umræðu eigum mikið verk fyrir höndum, að fara mjög nákvæmlega yfir þessar tillögur og fara nákvæmlega yfir staðreyndir málsins.