144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:55]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér sýnast engin takmörk vera fyrir fáránleikanum. Ég get tekið undir það hjá mörgum hv. þingmönnum sem hafa komið hér upp og talað um að búið sé að bulla mikið í dag. Ég er alveg sammála því. Ég get tekið undir með hv. þingmönnum sem eru orðnir leiðir á sjálfum sér. Þeir eru búnir að koma upp og tönnlast á sömu orðunum aftur og aftur í allan dag.

Ég skora á þingheim — menn tala um ofríki meiri hlutans, ýmist ofríki meiri hluta eða ofríki minni hluta. Hvað er ofríki minni hluta annað en það sem birtist í því að kallað var eftir að hæstv. umhverfisráðherra kæmi hingað í umræðuna en svo er honum ekki hleypt að? Það er bara haldið áfram að bulla út í eitt og tefja málið. Hv. þingmenn þora ekki að fara í efnislegar umræður um málið. Svo er kvartað yfir því að þingmenn komi ekki á mælendaskrá — hleypið þið þeim bara að, látið málið rúlla.