144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er 100% sammála forvera mínum og hefði að öllum líkindum höndlað eins síðastliðið haust. Ég nefndi það samt hér að fólk var hársbreidd frá því að ná því marki að setja fram þessar þrjár virkjanir í Þjórsá, það var ekki komið fram í haust en þó var búið að gera það á síðasta kjörtímabili. Já, ég svara því fullkomlega að ég hefði eflaust farið fram með nákvæmlega sams konar tillögu og forveri minn, að treysta á það. Verkefnisstjórn um rammaáætlun er ráðgefandi fyrir ráðherra og ráðherra verður síðan alltaf sjálfur að taka sína ákvörðun. Þetta er ráðgjöf, þetta er ekki stjórnvald. Mér finnst stundum vera sá misskilningur að verkefnisstjórn sé sá sem hafi æðsta valdið. Þetta er ráðgjöf fyrir ráðherra og hann tekur sína ákvörðun í kjölfarið.