144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er þá hæstv. ráðherra að segja frá því hér að það sé meiri hluti fyrir tillögu meiri hluta atvinnuveganefndar, að sá sem fer með málaflokk umhverfismála á Íslandi, sem hefur ákveðnar skoðanir á honum sem eru ekki í samræmi við skoðanir meiri hluta atvinnuveganefndar, hafi þá ekkert vægi innan síns þingflokks og innan stjórnarmeirihlutans í þessum efnum? Það þykja mér nokkur tíðindi ef svo er. Það er auðvitað mikill munur á því hvernig á þessum málum er haldið, hvort menn færa hluti úr nýtingarflokki í biðflokk eða færa biðflokkshugmyndir yfir í nýtingarflokk. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún líti svo á að sú aðgerð sem hér er til umfjöllunar sé sambærileg því að færa hugmyndir úr nýtingarflokki í bið (Forseti hringir.) eins og gert var á síðasta kjörtímabili, hvort það sé sambærilegt því að setja virkjunarhugmyndir úr biðflokki í nýtingarflokk.