144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Lögin eru alveg skýr hvað þetta varðar. Hæstv. ráðherra telur að hún geti síðan haft sína skoðun á því að verkefnisstjórn eigi að vinna hraðar og að hún þurfi ekki meira en ár til að geta metið umhverfisáhrif, samfélagsleg áhrif og efnahagsleg áhrif þessara kosta. Í tilviki þessara kosta í Þjórsá er fyrst og fremst verið að meta tiltekin áhrif á laxastofninn þar sem færð hafa verið mjög sannfærandi rök fyrir því af hálfu verkefnisstjórnar að það þurfi tíma til að skoða þann stofn. Mér finnst lögin vera algjörlega skýr í þessum efnum og ég tel mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra hafi komið hér fram og skýrt stöðu sína því að mér finnst hún satt að segja setja þetta mál í talsvert uppnám hvað varðar það hvernig við lítum á lög um rammaáætlun og hvernig við ætlum að fylgja þeim lögum. Þar tel ég að hæstv. ráðherra sé komin í ákveðna mótsögn við eigið ráðuneyti. Þeir sem hafa rætt um það í dag að hér sé bara verið að bulla (Forseti hringir.) í þessari umræðu og teygja lopann þá held ég að þetta sýni enn fremur hversu mikil þörf er á að við ræðum þessi mál talsvert vel.