144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:42]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það sem kom í ljós í þeim orðaskiptum sem við áttum hér við hæstv. umhverfisráðherra er að skoðanir ráðherrans eru mjög svipaðar þeim sem hún hefur haft á þessum málaflokki og haldið fram í þessum málatilbúnaði öllum. Hún er ekki talsmaður Framsóknarflokksins í umhverfismálum, þ.e. hún talar ekki fyrir hönd síns þingflokks eða flokks í þessum málaflokki. Hún kemur hér fram eins og stjórnarmeirihlutinn komi henni ekki við, hún sé bara að sinna ákveðnu verkefni og hafi sínar skoðanir á því sem gert sé á þingi en að samráð og samtal, eins og hefðbundið er á milli stjórnarflokka, sé ekki í verkahring hæstv. ráðherra. Hún virðist líta á slíkt sem óeðlileg afskipti. (Forseti hringir.) Það sem við erum að reyna að fiska eftir er hver sé hin pólitíska staða þessa máls. (Forseti hringir.) Er þetta ríkisstjórnarmál eða er þetta mál meiri hluta atvinnuveganefndar?