144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ekki fundust mér ræðuhöld eða svör hæstv. ráðherra skýra málin nokkurn skapaðan hlut, þvert á móti. Maður er engu nær um stöðu málsins eftir þessa umræðu. Hér kemur fram hjá hæstv. ráðherra það sjónarmið hennar að verkefnisstjórnin sé núna orðin einhvers konar ráðgjafarnefnd úti í bæ. Veit hæstv. ráðherra ekki að það gildir heill lagabálkur um störf hennar og með hvaða hætti henni ber að skila af sér? Veit hæstv. ráðherra ekki að ráðuneytið sem hún fer fyrir núna er búið að gefa álit á því hvernig eigi að fara með niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og hvernig beri að skila þeim hingað inn? Það álit er algjörlega á skjön við að um sé að ræða einhverja ráðgjöf utan úr bæ. Það er hreinlega sagt í áliti og mati umhverfisráðuneytisins að lögin um rammaáætlun geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hafi ekki farið fram hvað það varðar, flokkun þeirra kosta sem hún leggur til að verði bara vippað á milli flokka (Forseti hringir.) í þinginu.

Þessi málaflokkur er í tómu tjóni í höndum (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar.