144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég var ein af þeim sem biðu áhugasamir eftir ræðu hæstv. umhverfisráðherra. Ég verð að segja að hún olli mér vonbrigðum. Í raun og veru upplýstist það að engin stefna er hjá Framsóknarflokknum í umhverfismálum þegar menn tala svona út og suður. Það er því miður þannig þegar fulltrúar Framsóknarflokksins í atvinnuveganefnd eru með allt aðra stefnu og ná yfirhöndinni og keyra hana í gegn með Sjálfstæðisflokknum. Svo kemur umhverfisráðherra hingað og talar fyrir annarri stefnu og segir að þeir virkjunarkostir, a.m.k. tveir sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til, séu ekki á dagskrá að hennar mati.

Ég held að Framsóknarflokkurinn þurfi að halda annað flokksþing og samræma stefnu sína í umhverfismálum. Er það ekki orðið tímabært?