144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég veit að forseta er annt um lög landsins og mér sem formanni velferðarnefndar hefur verið meinað að taka á dagskrá skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð þó að sá sjóður heyri undir nefndina. Mér var líka meinað, ekki af forseta en af yfirstjórn þingsins, að vera með upplýsingafund um fjárlögin sem er náttúrlega hlálegt og ég mun aldrei aftur láta yfir mig ganga. En núna erum við með minnisblað frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um það að ráðuneytið telji ólöglegt að gera þá breytingu sem hér er lögð til. Þessi breyting er lögð fram af meiri hluta atvinnuveganefndar og studd að hluta til af hæstv. umhverfisráðherra. Ég legg til að hæstv. forseti (Forseti hringir.) ljúki þessum fundi nú, setjist síðan niður með hv. forsætisnefnd og þau velti fyrir sér hvernig eigi að taka á þeirri stöðu sem er komin upp á Alþingi Íslendinga.