144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kannski til marks um stöðu þessa þings og viðhorf þessa meiri hluta að formaður fjárlaganefndar á Alþingi Íslendinga hefur ekkert meira og betra að gera en að fylgjast með tölfræði yfir það hversu oft menn taka til máls í þinginu. (VigH: Þið þekkið …) Í þeim aðstæðum sem núna eru á vinnumarkaði hefði ég haldið að formaður fjárlaganefndar hefði eitthvað meira að gera en það.

Virðulegi forseti. Hér logar allt í deilum og þá er tekin ákvörðun um að vera í veruleikafirrtu ástandi á Alþingi við að telja mínútur ræðumanna eða standa í því að takast á um ráðstafanir á auðlindum þjóðarinnar, eitt umdeildasta mál okkar samtíma. Menn hafa spurt hvað mönnum gangi til. Þetta er gert, virðulegi forseti, til að breiða yfir fullkomið dugleysi og getuleysi þessarar ríkisstjórnar til að takast á við þær kjaradeilur sem núna (Forseti hringir.) eru logandi á vinnumarkaði. Það er ástæðan fyrir því að við stöndum hér í þessu veruleikafirrta ástandi.