144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. umhverfisráðherra hefur lýst afstöðu sinni til þessa máls. Ég fagna því að hún hefur sagt að hún hefði viljað sá tillöguna óbreytta. Ég fagna því líka að Sigurður Ingi Jóhannsson gerði slíkt hið sama í haust.

Vegna þess að hæstv. ráðherra er flutningsmaður málsins spyr ég hvort hún geti ekki hreinlega afturkallað það. Getur hún ekki afturkallað það úr þinginu eins og ráðherra getur gert þegar það fer af leið, þegar það fer í tóma vitleysu, leiðrétt þennan óhræsisleiðangur?

Hvað segja hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem hér eru? Hvað segir hv. þm. Karl Garðarsson? Er hann farinn? Hvað segir hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, stendur hún með sínum ráðherra? Hvað segir hv. þm. Willum Þór Þórsson um umhverfisráðherrann sinn? Hvað segir hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir? Ég ætla ekki að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvað henni finnist vegna þess að hún er upptekin við verðugt verkefni, það að vera tímavörður á þingfundinum. (Gripið fram í.)